Vélvík smíðar laufabrauðsjárn fyrir HönnunarMars

Það er alltaf gaman að fá nýstárleg verkefni til afgreiðslu. Eitt nýjasta verkefnið tengist nýafstöðnum HönnunarMars, hinni árlegu hönnunarhátíð sem Hönnunarmiðstöð stendur jafnan fyrir í þessum mánuði. Hönnunarverslunin Kraum fékk okkur til að smíða nýja útfærslu af hinu rammíslenska laufabrauðsjárni. Heiðurinn af hönnuninni á ungur vöruhönnuður, Kolbeinn Ísólfsson, en hann útskrifaðist frá Listaháskólanum á síðasta ári. Með vélakosti okkar reyndist unnt að gera laufabrauðsjárnið úr einungis tveimur hlutum, skafti og hjóli, en hér áður fyrr var járnið alls úr ýmist fjórum eða fimm hlutum. Laufabrauðsjárn Kolbeins var frumsýnt á HönnunarMars og við þökkum Höllu Bogadóttur hjá Kraum og Kolbeini fyrir skemmtilegt samstarf í kringum laufabrauðsjárnið sem er okkur sönn ánægja að smíða, enda alltaf gaman þegar þjóðlegt handverk og hugvit ásamt hátækni fara saman svo úr verði eigulegur gripur.